Við byggjum nýjan

Miðbæ Selfoss

Nýtt hjarta bæjarins

Sigtún er fasteignaþróunarfélag sem stendur að uppbyggingu í miðbæ Selfoss. Þar endurreisum við hús sem áður stóðu víða á Íslandi, en hurfu af yfirborði jarðar af völdum bruna eða niðurrifs fyrir mörgum áratugum, jafnvel öldum. Að reisa ný hús í gömlum stíl í ungum bæ eins og Selfossi er ákveðinn hugmyndafræðilegur leikur sem skapar miðbænum sérstöðu – að tengja saman hið gamla og nýja, fortíð og framtíð. Saman mynda húsin góða heild og fallega umgjörð fyrir mannlíf og margvíslega atvinnustarfsemi.

Við brúum gamalt og nýtt

Stíll húsanna sækir innblástur í byggingarhefð sem varð til á síðustu áratugum 19. aldar og jafnvel fyrr, þegar hugmyndir og áhrif erlendra arkitekta runnu saman við íslenskt handbragð og íslenskar aðstæður. Sum þeirra stóðu upprunalega á Selfossi en önnur koma annars staðar frá, svo sem Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og víðar. Sum húsin voru einföld og fátækleg, önnur skrautleg og íburðarmikil. En saga þeirra er stórmerkileg, sem og fólksins sem í þeim bjó og starfaði á sínum tíma.

Grænar áherslur

Þó miðbærinn kunni að bera með sér andblæ liðinna tíma, þá stenst hann ítrustu umhverfisgæðakröfur nútímans. Við ætlum að skapa aðlaðandi og heilnæmt umhverfi þar sem mannlíf getur blómstrað í sátt og samlyndi við umhverfið. Gengið er lengra í umhverfisáherslum en dæmi eru um í sambærilegum verkefnum hér á landi. Öll húsin í miðbænum eru vottuð með norræna umhverfismerkinu Svaninum og deiliskipulag miðbæjarins hefur hlotið vottun frá BREEAM sem er eitt af stærri alþjóðlegri vottunarkerfum heims.

Erum rétt að byrja

Uppbygging miðbæjarins heldur áfram og í næsta áfanga munu rísa yfir 30 hús til viðbótar, sem öll eiga sinn sess í íslenskri byggingarsögu, sem munu fá ný hlutverk sem heimili verslana, veitingastaða, hótela, íbúða og vinnustaða. Á milli húsanna verða til fleiri falleg útirými af ýmsum stærðum og gerðum, svo sem torg, göngugötur og græn svæði. Við trúum því að nýr miðbær Selfoss muni skapa ný tækifæri á fjölmörgum sviðum. Okkur dreymir um að nýsköpun aukist, atvinnulífið verði fjölbreyttara og stoðir bæjarfélagsins verði styrkari. Að nýr miðbær geri Selfoss að betri stað.

Um Sigtún

Sigtún Þróunarfélag er fasteignaþróunarfélag á Selfossi. Stærsta verkefni félagsins er uppbygging í miðbæ Selfoss.  
 
Leó Árnason, formaður stjórnar – leo@sigtun.is
Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri – vignir@sigtun.is